Edda leiðir Lyf og heilsu

Stjórn Lyf og heilsu hefur ráðið Eddu Hermannsdóttur sem forstjóra félagsins.

Edda Hermannsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Lyf og heilsu. Hún mun hefja störf í október. Hún tekur við af Kjartani Erni Þórðarsyni.

Edda hefur starfað hjá Íslandsbanka síðan 2015 og hefur meðal annars leitt markaðs- og samskiptamál, greiningardeild, fjárfestatengsl, vefmál, vildarþjónustu og unnið að stefnumótun bankans. Áður starfaði Edda sem aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins og er í dag stjórnarformaður UNICEF á Íslandi. Edda er hagfræðingur frá Háskóla Íslands, hefur lokið stjórnendanámi frá IESE í Barcelona og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Samið hefur verið um starfslok við Kjartan Örn Þórðarson. Kjartan hefur unnið að framgangi Lyf og heilsu frá aldamótum og hefur átt ríkan þátt í uppgangi félagsins. Hann tók við stöðu framkvæmdastjóra árið 2016 og hefur félaginu farnast vel undir hans forystu. Kjartan verður félaginu innan handar á næstunni og mun tryggja farsæla yfirfærslu verkefna.

Edda Hermannsdóttir, forstjóri Lyf og heilsu:

Make it stand out

„Það er mér mikill heiður að fá að leiða Lyf og heilsu sem gegnir mikilvægu hlutverki á heilbrigðismarkaði. Heilsa snertir okkur öll og lyfjaverslanir eru ekki aðeins mikilvægar fyrir lyfjaafgreiðslu heldur einnig fyrir ráðgjöf og heilsueflandi þjónustu. Framundan er spennandi vegferð þar sem áhersla verður lögð á forvarnargildi heilsu og enn betri þjónustu við viðskiptavini til að auka þeirra lífsgæði. Ég hlakka til að vinna að þeirri stefnumótun með Lyf og heilsu og stjórn félagsins.”

Hörður Guðmundsson, stjórnarformaður Lyf og heilsu:

Make it stand out

Alfa Framtak tók við sem ráðandi hluthafi í vor. Við sjáum veruleg tækifæri og teljum að framundan séu stór verkefni sem muni koma til með að setja mark sitt á félagið til framtíðar. Það verður spennandi að vinna að stefnumótun og framgangi lykilverkefna með Eddu, stjórninni og starfsfólki Lyf og heilsu. Edda kemur með dýrmæta þekkingu að borðinu. Hún tekur jafnframt við góðu búi, en Kjartan hefur byggt upp flotta liðsheild og öflugt félag sem þjónustar þúsundir Íslendinga á degi hverjum. Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég þakka honum fyrir sitt framlag til félagsins.

Lyf og heilsa í umbreytingarferli

Í lok árs 2024 var tilkynnt um kaup AF2, framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks, á ráðandi hlut í Lyf og heilsu.

Fyrirtækið rekur 27 lyfjaverslanir undir merkjunum Lyf og heilsa, Apótekarinn, Garðsapótek og Apótek Hafnarfjarðar. Félagið rekur einnig 4 lyfjaútibú. Auk lyfjaverslana rekur félagið tvær gleraugnaverslanir undir merkinu Augastaður, SA Lyfjaskömmtun og Gamla apótekið, sem sérhæfir sig í framleiðslu á kremum, áburðum og olíum. Alls starfa um 300 manns hjá félaginu í um 175 stöðugildum.

Félagið leggur áherslu á heilsu og heilbrigði og er markmið þess að auka lífsgæði viðskiptavina sinna, veita persónulega, örugga og faglega þjónustu með breiðu úrvali lyfja, heilsutengdra vara og snyrtivara. Stefnt er að því að styðja við þessar áherslur og markmið, enda eru lyfjaverslanir lykil innviðir í hverju samfélagi.

Alfa Framtak er rekstraraðili sérhæfðra sjóða og hefur langa reynslu af fjárfestingum, að styðja við vöxt og að leiða umbreytingar. Markmið Alfa Framtaks er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi.

Next
Next

Alfa Framtak fjárfestir í Samherja fiskeldi og NP Innovation