Árni Jón fer yfir sögu og uppbyggingu Alfa Framtaks
Árni Jón Pálsson, fjárfestingastjóri og einn stofnenda Alfa Framtaks, var nýlega gestur í hlaðvarpinu Íslenski draumurinn. Þar fer hann yfir upphaf félagsins, áskoranir á fyrstu árum og helstu verkefni Alfa Framtaks þar á meðal aðkomu félagsins að INVIT og umbreytingu Origo.
Upphaf Alfa Framtaks
Árni Jón lýsir stofnun Alfa Framtaks árið 2016 þegar hann, Gunnar Páll Tryggvason og Friðrik Jóhannsson ákváðu að hætta í fyrirtækjaráðgjöf og snúa sér að rekstri framtakssjóða. Markmiðið var að safna í sjóð sem þeir myndu stýra og persónulega fjárfesta í („skin in the game“). Áhersla var að fá einkafjárfesta að sjóðnum í ríkari mæli en tíðkaðist á íslenskum markaði.
Fjármögnunin gekk hægar en áætlað var og samstarf við stóran bakhjarl lauk skyndilega sem setti verkefnið í erfiða stöðu. Þrátt fyrir það tóku stofnendur ákvörðun sumarið 2017 að leggja allt í verkefnið næstu tvo mánuði. Í nóvember sama ár tókst að loka fyrsta sjóðnum AF1 með 5 milljarða króna í áskriftarloforð. Sjóðurinn var síðan stækkaður í 7 milljarða króna og lagði grunninn að rekstri Alfa Framtaks í dag.
Frekari umfjöllun: Tóku ákvörðun um að fara „all in“
Aðkoma að Gröfu og Grjót og stofnun INVIT
Í viðtalinu fjallar Árni Jón um fjárfestingu Alfa Framtaks í Gröfu og Grjót árið 2021 og uppbyggingunni sem fylgdi þeirri fjárfestingu. Markmiðið var að styrkja rekstur félagsins, innviði þess og létta á daglegri ábyrgð stofnanda þess, Sigurði Gylfasyni, sem þá var ábyrgur fyrir öllum þáttum starfseminnar. Sigurður hafði byggt upp frábært fyrirtæki með dugnaði og útsjónarsemi en Alfa Framtak sá tækifæri byggja enn frekar á þeim grunni sem lagður hafði verið og sækja ákveðið fram með félaginu.
Á þremur árum jókst velta félagsins úr rúmlega 1,5 milljörðum króna, sem Árni lýsir sem „þaki á því sem hægt er að keyra í gegnum einn GSM-síma“, í 3,5 milljarða króna. Afkoma þrefaldaðist á sama tímabili.
Með aðkomu Alfa Framtaks hófst markviss uppbygging sem fól í sér yfirtökur og ný verkefni. Árið 2023 stofnuðu AF1 og teymi Gröfu og Grjóts INVIT, samstæðu íslenskra innviðafyrirtækja sem í dag inniheldur meðal annars Steingarð, BV-verktaka og Undirstöðu.
Umbreyting Origo og afskráning úr Kauphöllinni
Árni fer einnig yfir aðkomu AF2 að Origo og þá stefnu sem mótuð var þegar sjóðurinn varð ráðandi hluthafi. Frá byrjun var lögð áhersla á að hraða umbreytingu félagsins og vinna náið með stjórnendum að stefnumótun, rekstrarlegum umbótum og skýrari áherslu á kjarnastarfsemi.
Lykilskref í þeirri vegferð var afskráning félagsins úr Kauphöllinni árið 2023. Árni Jón segir að afskráningin hafi skapað félaginu svigrúm til að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem nauðsynlegar voru til að efla samstæðuna og að umbreytingin hefði ekki verið möguleg á jafn skömmum tíma ef félagið hefði verið skráð.
Í kjölfarið tók samstæðan upp nafnið Skyggni eignarhaldsfélag sem nú inniheldur 14 sjálfstæð félög. Kjarnastarfsemi Origo, sem snýr að rekstrarþjónustu, innviðum og hugbúnaði, var flutt í nýtt dótturfélag, Origo ehf. Aðrar einingar voru annað hvort endurskipulagðar eða seldar. Til að mynda voru heilbrigðislausnir færðar í nýtt félag, Helix Health, sem nú starfar með eigin framkvæmdastjóra og vörumerki. Ferðalausnir fóru inn í Flekaskil (Godo) gegn eignarhlut sem síðar var seldur við samruna Godo og Visit Group. Jafnframt var sænska dótturfélagið Applicon selt til Pearl Group eftir umfangsmikla endurskipulagningu ásamt SAP viðskipta- og bankalausnum Origo á Íslandi.
Árni Jón segir að Alfa Framtak sé nú komið í hálfleik í vegferðinni með Skyggni-samstæðuna og að næsta skref sé að efla og stækka hverja rekstrareiningu eftir mikla umbreytingu síðustu tvö og hálft ár.
Frekari umfjöllun: Umbreyting Origo aldrei tekist sem skráð félag